MX VERKEFNI er viðburðafyrirtæki með fókus á tónlist og sviðslistir. Við tökum aðeins að okkur verkefni ef við trúum því að við getum gert þau frábærlega. Okkar markmið er að hver viðburður og hvert sungið lag hreyfi við fólki. Hlátur, grátur eða innblástur – þá erum við sátt við dagsverkið.
Við tökum að okkur að setja upp ólíkar gerðir viðburða. Sviðslistaverk, tónleikar og ráðstefnur eru okkar sérsvið, en við erum líka til í áskoranir. Við sjáum um skipulagið, framkvæmdastjórnina og markaðssetninguna þannig að þú getir einbeitt þér að því sem skiptir þig mestu máli.
Ef þú ert með verkefni eða viðburð og vantar eingöngu aðstoð við markaðssetningu, samfélagsmiðla, fréttabréf á netinu og samskipti við fjölmiðla, þá getum við aðstoðað. Margra ára reynsla í þeim efnum getur nýst í hvaða verkefni sem er.
Við hjálpum tónlistarmönnum að koma sér á framfæri – í því skyni veitum við aðstoð og ráðgjöf við útgáfu tónlistar á streymisveitum og samskipti við útgáfufyrirtæki og tónleikastaði, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig aðstoðum við og veitum ráðgjöf varðandi markaðssetningu, ímyndarsköpun og umsóknarskrif.
Flest tónlistarfólk þarf á því að halda að horfast í augu við sjálft sig og skilgreina sig sem listamann - að skilja hver þau eru, hver þau eru ekki og af hverju þau vilja skapa sína list. Við aðstoðum listafólk við að komast nær sjálfu sér með listrænni markþjálfun byggða á áralangri reynslu af þjálfun og kennslu.
Martin nældi sér í BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík. Hans köllun í lífinu er þó að setja upp lifandi viðburði. Hann vann sem upplýsingafulltrúi í franska sendiráðinu í Reykjavík eftir BA-námið, en það var eftir að hann komst í kynni við sviðslistasenuna í starfi sínu sem markaðs- og miðasölustjóri Tjarnarbíós að ekki var aftur snúið. Hans staður er í kringum listir og listafólk og að setja á svið áhugaverða viðburði sem hreyfa við fólki.
Martin hefur í gegnum tíðina komið að uppsetningu margs konar viðburða. Hann hefur leitt verkefni á borð við TEDxReykjavík, verið framkvæmdastjóri leikritsins Fyrirlestur um eitthvað fallegt með leikhópnum SmartíLab og markaðsstjóri leikritsins Hið stórfenglega ævintýri um missi. Hann hefur sett upp upplifunarsýningu á Skrauthólum og skipulagt tónleika, t.d. tónleikaferðalag Marínu Óskar & Ragnars Ólafssonar um Ísland og tónleikaseríu á bar Tjarnarbíós sem hluta af Iceland Airwaves off-venue.
Einnig hefur Martin sinnt starfi markaðsstjóra fyrir Reykjavík International Film Festival, sölu- og markaðsfulltrúa hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Special tours og aðstoðarmiðasölustjóra í Hörpu. Þá ritstýrði hann bók um 50 ára afmæli sjálfboðasamtakanna Alþjóðleg ungmenntaskipti.
„Þó að hið sorglega við að setja upp lifandi viðburði sé að þeir gerist bara einu sinni trúi ég því að góður viðburður setji varanlegt mark sitt á þá sem fá að njóta hans. Innblásturinn sem stundum hlýst af slíkri upplifun getur leitt ótrúlegustu hluti af sér. Tilfinningarnar og hugsanirnar sem þeir geta hrint af stað eiga það til að breyta lífi fólks.“
Söngkonan, laga- og textahöfundurinn Marína Ósk Þórólfsdóttir (1987) er fædd og uppalin í Keflavík, þaðan sem hún útskrifaðist með burtfararpróf í rytmískum söng og klassískum þverflautuleik vorið 2011. Hún lauk meistaraprófi í jazz performance frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi sumarið 2021 og BA í jazzsöng frá Conservatorium van Amsterdam vorið 2017.
Marína Ósk hefur gefið út tvær sólóplötur, Athvarf og One Evening in July, og hlaut verk af þeirri síðari Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 sem tónverk ársins í jazzflokki. Alls hlaut platan fjórar tilnefningar og Athvarf hlaut tvær tilnefningar árið 2020. Marína er leiðandi söngafl á íslenskri jazzsenu og hefur komið reglulega fram á Jazzhátíð Reykjavíkur auk flestra jazzklúbba og tónleikaraða hér á landi. Marína hefur einnig túrað vítt um Evrópu og leikið á jazzfestivölum og klúbbum.
Marína fæst við fjölbreytta tónlist; jazz, popp, rokk og söngvaskáldatónlist, auk þess sem hún kennir rytmískan söng við Listaháskóla Íslands. Hún er eftirsóttur kennari og hefur einnig kennt við Tónlistarskóla FÍH, MÍT og fleiri. Hún býr í Reykjavík og syngur og semur tónlist að aðalstarfi.
Sérsvið Marínu í þjálfun tónlistarmannsins er listræn markþjálfun, fullkomnun raddbandanna og að hjálpa listamanninum að finna sína eigin rödd í gegnum tónlist, hvort sem er lagasmíðar eða flutningur. Einnig veitir Marína ráðgjöf hvað varðar útgáfu tónlistar og allt sem því fylgir.